154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég hafi ekki sakað hv. þingmenn Viðreisnar um að tala niður krónuna, ég kann að hafa sagt að þeir rægi krónuna stundum, ákveðinn blæbrigðamunur á því, og fyrir því eru ástæður. Það er hins vegar, og kannski tengist þessu með að rægja krónuna, einfaldlega ekki rétt að það að hafa haft sjálfstæðan gjaldmiðil, krónuna í okkar tilviki, hafi sérstaklega bitnað á almenningi. Eða eru ekki kjör á Íslandi almennt betri en í flestum öðrum löndum í heiminum? (SGuðm: Væru enn betri.) Væru enn betri, kallar hv. þingmaður fram í. Lítum til Grikklands sem öðlaðist, af gæfu væntanlega að mati hv. þingmanna Viðreisnar, að fá evruna. Þegar bjátaði á, fyrst með fjármálakrísunni og svo með evrukrísunni, þá hrundi allt meira og minna í Grikklandi; kjör, ellilífeyririnn náttúrlega að miklu leyti bara gufaði upp, fyrirtækin fóru á hausinn o.s.frv., af því að þeir voru ekki með eigin gjaldmiðil og fyrir vikið gátu þeir ekki aðlagast aðstæðum. Það er einmitt mikilvægt með eigin gjaldmiðil, til að geta aðlagast sveiflunum, aðstæðum. (Gripið fram í.) Að vera með evru, að vera með erlendan gjaldmiðil, skulum við segja, sem menn hafa ekkert um að segja er eins og að fara í teygjustökk í keðju, þú bara slitnar í sundur þegar þú lendir. En að vera með eigin gjaldmiðil, þá ertu í teygju sem getur hjálpað til við að aðlaga samfélagið. Og hver hefur afraksturinn af því verið? Jú, það er samfélag þar sem kjör eru bara með því sem best gerist í heimi, þó að við viljum auðvitað að þau séu betri og ekki hvað síst fyrir það fólk sem hefur að einhverju leyti orðið út undan í samfélaginu. En hvaða lönd eru þetta, frú forseti? Sviss, er það ekki? og Noregur og Ísland, öll með eigin gjaldmiðil.